Skip to main content
1. október 2021

Nýtt útlit kynningarefnis HÍ í loftið

Nýtt útlit kynningarefnis HÍ í loftið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í tilefni af nýrri heildarstefnu HÍ og 110 ára afmæli skólans hefur útliti alls kynningarefnis verið breytt. Þá hafa samtímis verið gerðar breytingar á myndmerki HÍ. Enn er hið kunnuglega andlit mennta- og viskugyðjunnar Pallas Aþenu í háskerpu en drættir hafa hins vegar verið einfaldaðir til að falla betur að stafrænni miðlun sem er orðin helsta birtingin á merkinu og nær öllu kynningarefni skólans. 

Merki HÍ hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina frá því það birtist fyrst í kringum 1970. Nýja merkið sækir fyrirmynd í upprunalega merkið en andlitið er hartnær óbreytt frá þeirri útgáfu myndmerkisins sem innleidd var í kringum 2010. Allar línur hafa hins vegar verið einfaldaðar á hjálmi, sem er breyttur og sækir nú bogaform í upprunamerkið, og hárið hefur verið einfaldað í framsetningu til að vera sýnilegra, ekki síst á samfélagsmiðlum og í snjalltækjum. 

Hér má sjá myndband um breytingarnar á merki HÍ og hvernig það fellur að nýju kynningarefni. 

Þá hefur leturgerð verið breytt í sama tilgangi og einni er styttingin HÍ notuð meira en áður í kynningarefni, sérstaklega í hinum stafræna heimi, en HÍ er það heiti sem algengast er að Íslendingar nota um háskólann sinn, háskóla okkar allra. 

Dregið verður úr notkun lita fræðasviða skólans í kynningarefni, en heildarlitur HÍ er blár og í anda stefnunnar nýju þar sem áhersla er á opinn háskóla. Einn sterkur litur gefur þá mynd að Háskólinn sé án aðgreiningar og hindrana.

Auðvelt er að skoða breytingar sem hafa orðið á öllu kynningarefni með því að opna nýjan hönnunarstaðal skólans en honum var formlega hleypt af stokkum í dag. Í honum er hægt að skoða allar hönnunareiningar, hlaða niður leturgerð (fonti), nýjum merkjum skólans og öllum nauðsynlegum grunnum og sniðskjölum sem nemendur og starfsfólk nota á degi hverjum. Í því sambandi má nefna slæðugrunna og sniðskjöl fyrir Word.

Stafræn umbylting starfs og þjónustu

Mikilvægur hluti af gæðamenningu HÍ snertir hvernig skólinn nálgast verkefni en í nýju stefnunni er einmitt áhersla á að vinna þvert á einingar. Í stefnunni er einnig áhersla á að færa þjónustuna án milliliða til þeirra sem hennar óska, þunginn verður á notendamiðaða þjónustu. Partur af þessu felst í stafrænni umbyltingu og verður vefurinn gerður enn aðgengilegri fyrir þá sem leita að námi eða hvers kyns þjónustu þar sem hægt verður að finna smátt og stórt án tillits til þeirra eininga sem vista viðkomandi þjónustu. 

Í nýju stefnunni: „Uppbygging námssamfélags og stafrænnar kennslu sem byggist á framsækinni kennslufræðilegri sýn stuðlar að öflugum háskóla. Aukinn stuðningur við rannsakendur, vandað framhaldsnám, skarpari umgjörð stjórnunar, auk stafrænnar umbyltingar stjórnsýslu og þjónustu styrkir Háskólann í alþjóðlegri samkeppni.“

Hluti af breytingum sem helgaðar eru þessu eru fólgnar í áframhaldandi þróun stafrænnar kennslu, þróun netspjallsins á heimasíðu skólans, sem hefur reynst afar vel, á jafningjafræðslu í námsspjalli nemenda sem einfaldar miðlun upplýsinga um nám til þeirra sem hyggja á háskólanám og í áframhaldandi þróun á námsvalshjóli skólans þar sem hægt er að skoða nám eftir áhugasviðum án tillits til stjórnsýslu skólans eða ólíkra eininga innan hans. Samtímis þessu verða síður námsleiða efldar fyrir bæði grunn- og framhaldsnám.

Markaðs- og samskiptasvið skólans veitir allar frekari upplýsingar um nýtt útlit HÍ ásamt kynningarstjórum fræðasviða skólans. 
 

logo HÍ