EN

Maxímús Músíkús

Tónlistarmús

 

Maxímús Músíkús er fyrir löngu orðinn heimilisvinur barna á Íslandi. Ævintýrið um músina knáu hljómaði fyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í maí 2008. Í kjölfarið fylgdi músagangur víða veröld og í dag hafa margar aðrar hljómsveitir, í ýmsum löndum, flutt ævintýrið fyrir hlustendur á öllum aldri. 

Út hafa komið fimm myndskreyttar bækur ásamt meðfylgjandi geisladiskum með tónlist í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Bækurnar um tónelsku músina frá Íslandi hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál eins og kínversku, þýsku, færeysku, kóreönsku, portúgölsku og ensku. Höfundarnir, Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari og Þórarinn Már Baldursson víóluleikari, voru bæði hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vladimir Ashkenazy, aðalheiðursstjórnandi hljómsveitarinnar, er verndari verkefnisins. Hallfríði var veitt heiðursviðurkenning forseta Íslands árið 2019 fyrir að bera hróður Íslands víða um heim með sögunum um Maxímús og stuðla þannig að jákvæðu umtali um land og þjóð. Hallfríður lést árið 2020.

Fyrsta bókin, Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, hlaut Fjöruverðlaunin sem barnabók ársins 2008 og Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar sama ár. Í kjölfarið fylgdu bækurnar Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann, Maxímús Músíkús bjargar ballettinum og Maxímús Músíkús kætist í kór. Þau tónlistarævintýri voru öll frumflutt á fjölskyldutónleikum hljómsveitarinnar.

Í nýjustu bókinni, Maxímús Músíkús fer á fjöll, ferðast hann um Ísland ásamt nýjum vinum sínum, músunum Vivu og Moto. Verkið var pantað af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníusveit Los Angeles sem frumflutti það á Reykjavíkur-hátíð sinni í Walt Disney-tónlistarhöllinni vorið 2017. 

Maxi á heima í Hörpu eins og Sinfóníuhljómsveitin og er reglulegur gestur í Litla tónsprotanum og Barnastund hljómsveitarinnar.

Lagið hans Maxa

Þá má ekki gleyma Laginu hans Maxa, en það samdi Hallfríður sjálf, og þau Þórarinn bjuggu til textann. Í upptökunni, sem hægt er að nálgast hér að neðan, er lagið í flutningi Rannveigar Káradóttur söngkonu og Músabandsins.

Hér má hlusta á Lagið hans Maxa:
maximus_lagid

Sækið textann af laginu hér.
Sækið nótur af laginu hér.

Teikningar af Maxímús Músíkús

Hér eru nokkrar myndir af Maxa sem þú getur prentað út og litað! 

Hlekkur á PDF

Hlekkur á PDF

Hlekkur á PDF

Heimasíðan hans Maxa er maximusmusicus.com.